Ræktun

Kræklingarnir eru ræktaðir með flekum sem er ný aðferð, þróuð af Kristjáni Inga Daðasyni.

Flekarnir fljóta á yfirborði sjávar og eru í lit sem fellur vel við litbrigði hafflatarins. Lirfur kræklings festast á ræktunarlínurnar undir flekanum, þar sem þær vaxa og dafna.
Hver fleki liggur tvö ár í sjó eða þar til að kræklingur er fullvaxinn í markaðsstærð.

Flekarnir eru hífðir um borð þar sem kræklingarnir losaðir af í söfnunarþró og þaðan í geymslugáma sem eru fullir af sjó. Áætlað er að vera með 4.000 fleka í ræktuninni árlega eða 12.000 fleka á þremur árum. Notast verður við sérhannað skip.

Skel upp úr sjó er það magn sem uppskeruskipið nær í og fer með í vinnslu. Þetta er hráefnið sem vinnslan hefur til að vinna afurðirnar úr. Þar sem gert er ráð fyrir 27% nýtingu þá þýðir það að 100 tonn af skel upp úr sjó verða að 27 tonnum af afurðum eftir að vinnsluferlinu er lokið.

Kræklingur sem vex í köldum sjó eins og við Ísland er lengur að vaxa heldur en í hlýjum sjó t.d. við Danmörku.

Við Danmörku er hún um níu mánuði að vaxa en skelin verður hlutfallslega stærri og þyngri heldur en við Ísland, þar sem vaxtatíminn tekur um tvö ár. Við Ísland verður vöðvinn stærri, stinnari og bragðmeiri.

Þegar skel hefur verið fjarlægð af flekum eru þeir lagðir niður aftur á öðrum stað þar sem tveggja ára ræktunarferlið hefst að nýju.