Fyrri mynd
Nsta mynd
...
English

Áhrif á vistkerfi

Stærð og umfang ræktunar hefur bein áhrif á vistkerfi, sé horft til neikvæðra þátta verður að horfa til eftirfarandi þátta; uppsöfnun og dreifingu úrgangsefna, uppsöfnun á kræklingi undir ræktunarstað, breytingar á tegundasamsetningu botndýra. Einnig er hætta á breytingu á magni svifs í sjó við næsta nágrenni við ræktunarstað (Valdimar Ingi Gunnarsson,2004; T. Wilding 2012). Gögn sem eru nýtt í samantekt þessari byggja að miklu leyti á rannsóknum frá Íslandi annars vegar og Skotlandi hins vegar þar sem ofangreindir þættir voru hafðir til hliðsjónar. Svæðin á Íslandi hafa ekki náð mikilli framleiðslugetu, en til samanburðar eru svæðin í Skotlandi mun stærri og byggja m.a. á svokallaðri flekaræktun, þar sem mikið magn ræktunarbanda er safnað saman í stað þess að einstök lína með færri ræktunarböndum er á stærra svæði. Sú aðferð er algengust við ræktun á Íslandi. Þar sem skilyrði geta verið óhagstæð, myndast skilyrði fyrir súrefnisþurrð í og á botnseti vegna niðurbrots lífrænna efna frá kræklingaræktun en þar ráða ræktunaraðferðir hversu mikið safnast af kræklingalirfu á hvern meter ræktunarbands. Einnig er stór áhrifaþáttur hversu vel böndin eru grisjuð þar sem uppsöfnun á sér stað, sem síðan fellur niður og safnast á botni ræktunarsvæðis og rotnar (Guðrún G. Þórarinsdóttir og Úlfar Antonsson 1993; Loo og Rosenberg 1984). Það getur valdið fækkun tegunda og einstaklinga þar sem mikil rotnun lífrænna leifa á sér stað við ræktunarstað sem síðar getur dregið úr fæðuframboði fyrir seiði nytjastofna og þ.a.l yrði minni veiði. Einnig geta átt sér stað breytingar í tegundasamsetningu botndýra þar sem meira er um lífrænar leifar og minnkun á svifi (Inglis o.fl.2000). Þó eru þessi áhrif háð álagi á ræktunarstað, þar sem álagið er minna getur fjölbreytileikinn aukist ef nytjategundir leita undir ræktunarstaði eins og krabbar og fiskar (Cole 2002).

Kræklingurinn síar svifþörunga úr sjónum því verður minni fæða fyrir aðrar tegundir sem nærast á þeim og hefur því áhrif á samkeppni svifdýrasamfélagsins um fæðu. Þar sem kræklingur nærist á eggjum og lirfum annarra sjávardýra getur það haft áhrif á nýliðun nytjastofna (Valdimar Gunnarsson o.fl. 2004).

Með tilkomu kræklingaræktar í fjörðum á sér stað breyting á dreifingu lífræns úrgangs. Heildarmagn lífrænna efna í vistkerfinu er óbreytt þar sem ekki er um að ræða að bætt sé inn í vistkerfið lífrænum efnum eða fóðri eins og gert er í laxeldi. Magn af lífrænum leifum sem kræklingurinn losar frá sér og safnast fyrir undir ræktuninni ræðst af umfangi hennar. Aðrir þættir sem hafa áhrif eru s.s. fæðuframboð og meltanleiki fæðunnar (Inglis o.fl. 2000). Sú hætta sem skapast er súrefnisþurrð í og á botnseti, hér á landi er straumhraði mikill og næringarauðgun lítil í fjörðum, því eru litlar líkur á súrefnisþurrð við kræklingaræktun (Valdimar Gunnarsson, o.fl. 2004).

Það eru ekki eingöngu neikvæð áhrif á vistkerfi kræklingaeldis og samhliða auknu fiskeldi (laxeldi) hefur krafan um sjálfbærni aukist. Kræklingarækt hefur verið nefnd sem gott dæmi um vistvænt eldisform og hefur á síðustu árum aukist áhugi fyrir fjöleldi (sameldi) þar sem eldi fisks, þörunga eins og beltisþara og ræktun kræklings fer fram á sama svæði. Með því nýtir kræklingurinn hluta af lífrænum úrgangi fiskeldisins og þörungar njóta góðs af áburði eldis og ræktunar (Eva D. Jóhannesdóttir 9. Apríl 2013). Sýnt hefur verið fram á betri vöxt kræklings við sjókvíar í laxeldi þar sem þéttleiki fiska er mikill, mikið fóðrað og straumur lítill. Þó er talið að slíkt eigi við þar sem lítið er af náttúrulegri fæðu í sjónum og þau lífrænu efni sem berast frá laxeldinu hafi áhrif á þann vöxt (Valdimar Gunnarsson, o.fl. 2004; P.J. Cramford, o.fl. 2009; T. Wilding 2012). Kræklingarækt í Svíþjóð hefur verið háð því að leyfi til fiskeldis sé úthlutað í einu fylki í landinu, til að áhrif næringarauðgunar frá eldinu verði minni, því má segja að kræklingarækt geti þjónað hlutverki hreinsistöðvar í vistkerfinu. Tvö hundruð tonna eldi getur dregið til sín köfnunarefni og fosfór sem finnst í tilbúnum áburði og samsvarar það notkun u.m.þ.b. 200 manna byggðar (Hovgaard o.fl. 2001).

Fjölbreytileiki og breytingar á búsvæðum skapast undir ræktunarsvæðum sem skapast vegna aukins fæðuframboðs. Á ákveðnum tegundum hefur verið fjöldi ásæta á kræklingi í ræktun, einnig á þeim hluta ræktunar, sem fellur af böndum og þar hefur gróður jafnvel náð festu og myndað aðstæður fyrir ný búsvæði og búið til skjól fyrir seiði. (Valdimar Gunnarsson o.fl.2004; Eva D. Jóhannesdóttir. 2013).

Ljóst er að kræklingarækt hefur áhrif á vistkerfið og því eru umhverfismál stór þáttur við mat á ræktunarskilyrðum hér á landi. Til að ímyndin verði jákvæð er nauðsynlegt fyrir ræktendur að setja vinnureglur svo áhrif ræktunar á vistkerfið verði í lágmarki. Sé eftirlit reglulegt þar sem fylgst er með breytingum eins og uppsöfnun lífrænna leifa og fylgst með kræklingi sem fallið hefur af ræktunarböndum, má lágmarka áhrif á vistkerfi ræktunarstaða (Valdimar Gunnarsson o.fl.2004; Jón Örn Pálsson 2009). Ein af þeim leiðum sem reynst hefur vel við rannsóknir og eftirlit eru neðansjávarmyndavélar þar sem botninn er skoðaður reglulega m.t.t. breytinga á vistkerfinu, á þetta við um breytingar jafnt við uppbyggingu, sem og reglubundna ræktun (Crawford o.fl. 2003; Telfer 2009).

Northern Light Seafood mun kappkosta að meta umhverfisaðstæður með öflugu eftirliti og er það hluti þess kostnaðar sem er áætlaður við ræktunarferlið sjálft. Jafnframt eru nú þegar til tæknilausnir í tengslum við flekana sem geta lágmarkað áhættuþætti sem snúa að súrefni fyrir svona víðfeðma ræktun.

 
2014SED